Unglingar

Táningsárin eru tími mikils umróts í lífi persónu, full af líkamlegum og tilfinningalegum breytingum. Það er algengt að hafa áhyggjur af því að verða ekki eðlileg/ur eða heilbrigð/ur.

Táningum finnst allt snúast í kringum þá. Þeir telja að enginn hafi nokkru sinni farið í gegnum viðlíka og þeir eða búið yfir sömu tilfinningum. Það er erfitt fyrir táning að þiggja aðstoð við líkamsþarfir vegna veikinda því að þeim finnst þeir vera síður heilir eða við stjórn.

Táningsárin eru tími frelsunar og þarfar fyrir að taka eigin ákvarðanir. Táningar búa yfir ríkri þörf fyrir að stíga út fyrir og sýna skýrt sjálfstæði sitt með því að fjarlægja sig sinni nánustu fjölskyldu. Það getur því verið erfitt fyrir viðkomanda að vera háður öðrum í auknum mæli vegna veikinda. Á bak við töffaraskap er oft lítil, óörugg og kvíðin persóna sem hefur ríka þörf fyrir aðstoð og er innst inni þakklát fyrir aðstoð og stuðning.

Í tengslum við svæfingu getur komið upp ótti við að vakna í miðri aðgerð eða að vakna alls ekki eftir hana. Oft koma upp áhyggjur um að missa stjórnina, segja eitthvað óviðeigandi og að geta ekki stjórnað þvagláti eða hægðum.

Táningar vilja að komið sé fram við þá eins og fullorðna, borin fyrir þeim virðing og þeir undirbúnir á sama hátt.Þeir búa yfirleitt yfir nægri þekkingu á líffræði og skilja hvernig líkami og líffæri þeirra vinna. Þeir geta hugsað fræðilega, dregið ályktanir af veittum upplýsingum og unnið úr afleiðingum af mörkuðum aðgerðum. Táningar eru þess vegna ekki sáttir við að vera einfaldlega sagt hvað er að fara að gerast í tilteknu ferli eða meðferð. Þeir vilja fá ítarlegar upplýsingar um alla umönnun, rannsóknir og meðferðir sem þeir undirgangast og hver áhrifin verða. Það ætti að hvetja táninga til að spyrja spurninga og taka þá með í umræður, fyrirspurnatíma og ákvarðanir varðandi þá. Undirbúninginn skal hefja tímanlega svo að það gefist tóm til íhugunar og hugleiðinga.